Skilja við ömmu og afa auk pabba

 Við skilnað foreldra veikjast tengsl barnsins við föður sinn og föðurforeldra og virðist sjaldgæft að föðurleggur komi í stað móðurleggs þegar móðurættin veitir lítinn stuðning, skv. umfangsmikilli nýrri rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, á aðlögun og líðan 18 ára ungmenna í kjölfar skilnaðar.

Minni tengsl við föðurættina má m.a. sjá af því að þeir sem reynt höfðu skilnað töluðu sjaldnar við föður sinn og hans foreldra en hin ungmennin gerðu, leituðu síður til þeirra og voru ólíklegri til að telja þau til nánustu aðstandenda. Þetta skýrir Sigrún með sterkri stöðu móðurinnar í lífi barnsins, sem rækti meira tengslin við sitt fólk en tengdafólk. Það mynstur verði svo skýrara við skilnað.

Aðspurð um hvernig megi skýra það að meiri þátttaka feðra í barnauppeldi hafi ekki skilað jafnari ábyrgð, segir Sigrún niðurstöðurnar hafa komið á óvart en mögulega liggi þetta í ólíkum hlutverkum foreldranna. Þótt pabbinn sé mikið með börnin sé hann oft að leika við þau en móðirin taki að sér ábyrgð og stjórn.

Pabbinn ósýnilegur

Aðspurð um hver hefði sagt þeim frá skilnaðinum sagði þriðjungur foreldrana hafa gert það í sameiningu og fjórðungur að móðirin hefði gert það. Í handriti að skýrslunni, sem 24 stundir hafa undir höndum, er bent á að tengsl geti verið á milli þess og að föðurnum sé kennt um skilnaðinn. „Draga má þá ályktun að ósýnileiki föður í sjálfu skilnaðarferlinu ýti undir hugmyndir barna um hann sem „sökudólg“, ekki síst þar sem móðir ber jafnframt mesta ábyrgð og tekur frekar að sér útskýringar.“

Þá kemur fram að þótt fráskildu foreldrarnir hefðu flestir hafið aðra sambúð þegar könnunin var gerð voru feðurnir líklegri til að skipta oftar um maka og eignast börn í seinni samböndum. Telja höfundar að þetta geti veikt stöðu föðurins í huga barnsins enn frekar.

Þarf meiri fræðslu um skilnaði

Að lokum er lagt til að þeir foreldrar sem hvað erfiðast eiga með að leysa úr sínum málum fái til þess aðstoð og að börn þeirra fái sérstakan stuðning.

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert