Sjónvarpsfyrirtæki sakað um að dreifa flensu til innfæddra

Einangraðir ættbálkar innfæddra geta verið viðkvæmir fyrir algengum sjúkdómum umheimsins. …
Einangraðir ættbálkar innfæddra geta verið viðkvæmir fyrir algengum sjúkdómum umheimsins. Myndin er af innfæddri konu í Suður-Ameríku en tengist ekki fréttinni. Reuters

Breskt sjónvarpsframleiðslufyrirtæki, Cicada Films, neitar ásökunum um að starfsmenn þeirra hafi innleitt flensu, sem leiddi til dauða fjögurra meðlima einangraðs ættbálks innfæddra í Perú.  Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Réttindasamtök innfæddra í Perú, yfirvöld í Perú, og bandarískur mannfræðingur segja að fjórir meðlimir ættbálksins hafi dáið eftir að sjónvarpsframleiðendurnir heimsóttu ættbálkinn.

Einangraðir ættbálkar eru mjög viðkvæmir fyrir heimsóknum frá umheiminum en mannfræðingar telja að um 15 einangraðir ættbálkar séu í Amazon skóginum í Perú, sem hafa ekkert samband við umheiminn.

Teymi á vegum Cicada Films var í Perú í fyrra til þess að leita að tökustöðum fyrir nýjan raunveruleikaþátt, en fyrirtækið framleiðir þætti sem kallast World´s Lost Tribes, eða Einangraðir ættbálkar veraldar.
Talsmaður Cicada segir að teymi þeirra hafi verið gefið leyfi til þess að heimsækja öll svæði innan Manu þjóðgarðsins í Amazon, en segir teymi þeirra ekki hafa heimsótt þetta ákveðna svæði sem um ræðir.   Þá segir hann að engin sönnunargögn séu fyrir því að teymi þeirra hafi innleitt sjúkdóm sem leiddi til dauða, né hafi nokkur af þeim ættbálkum sem þeir hittu misst meðlimi sína.

Hins vegar segir nefnd verndaðra svæða í Perú að teymi Cicada hafi farið inn á svæði sem eru stranglega vernduð, og að þeir hafi virt viðvaranir að vettugi, og ferðast um svæðið að vild og heimsótt mjög einangruð þorp.  Bandarískur mannfræðingur sem hitti teymið í Perú segir að þeir hafi kvartað yfir því að sum þorpin væru orðin of vestræn og því leitað að afskekktari stöðum.

Fjórir meðlimir Matsigenka ættbálksins eru sagðir hafa látið lífið og aðrir veiktust alvarlega eftir að sjónvarpsteymið heimsótti þá. 

Ónæmiskerfi innfæddra sem búa á mjög einangruðum stöðum, er öðruvísi að því leyti að líkami þeirra getur oft á tíðum ekki barist á móti sjúkdómum sem eru algengir í þéttbýli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert