Rafmagnið er framtíðin

„Við teljum að rafmagnið sé framtíðin í samgöngumálum,“ sagði formaður umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar í dag þegar hann, ásamt stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, kynnti svokallaða orkupósta fyrir rafmagnsbíla sem hafa verið settir upp í borginni.

Orkuveita Reykjavíkur hefur, í samstarfi við Reykjavíkurborg, Kringluna og Smáralind, sett upp orkupósta á bílastæðum þar sem rafbílaeigendum gefst kostur á að hlaða rafmagnsbíla endurgjaldslaust. Markmið framtaksins er að hvetja íslenska bílaeigendur og íslensk bílaumboð til að kynna sér kosti rafmagnsbíla til notkunar í borgarumferðinni.

Um er að ræða fimm orkupósta og komast 10 bílar í hleðslu á þeim. Til nánari útskýringar þá er orkupósturinn ósköp venjuleg rafmagnsinnstunga í kassa, þannig að orkupósta er að finna í hundruða þúsunda vís um alla borg og allt land. Borgarfulltrúarnir Gísli Marteinn Baldursson og Kjartan Magnússon sýndi fram á þetta með því að stinga venjulegri hárþurrku í samband í Bankastrætinu í dag.

Orkupóstarnir eru staðsettir á bílastæðum Smáralindar og Kringlunnar og í Bankastrætinu. Engir stöðumælar eru við verslunarmiðstöðvarnar og vistvænir bílar fá að leggja ókeypis í 90 mín. hverju sinni í miðbænum.

Rafbílaeigendur geta sótt lykla að orkupóstunum í höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert