Erfðavísir eykur líkur á fíkn

Decode segist hafa fært sönnur á tengsl milli breytileika í …
Decode segist hafa fært sönnur á tengsl milli breytileika í erfðavísi og nikótínfíkn. mbl.is/Golli

Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu og samstarfsaðilar greindu frá því í bandaríska tímaritinu Nature í dag að tengsl eru milli breytileika í erfðavísi í mönnum og líkum á því að ánetjast nikótíni.

Í tilkynningu frá Íslenskri Erfðagreiningu segir að um helmingur þeirra sem teljast af evrópskum uppruna hafa í sér þennan breytileika í a.m.k. einu eintaki og er áætlað að um 18% lungnakrabbameinstilfella og 10% útæðasjúkdómstilfella megi rekja til hans.

Í tilkynningunni segir: „Þessi erfðabreytileiki er þar með hugsanlega stærsti áhættuþáttur þessara sjúkdóma sem vitað er um. Vegna þeirra áhrifa sem breytileikinn hefur á reykingavenjur þeirra sem hafa hann í sér fylgir honum um 30% aukning á líkum á því að fá lungnakrabbamein og 20% aukning á líkum á því að fá útæðasjúkdóm (PAD), algenga þrengingu æða í fótum.

Rannsóknateymi Íslenskrar erfðagreiningar hóf rannsóknina á því að leggja spurningalista fyrir 50.000 Íslendinga þar sem spurt var um reykingavenjur. 300.000 erfðabreytileikar voru svo skoðaðir og reyndist umræddur breytileiki algengari hjá stórreykingamönnum en öðrum reykingamönnum og þátttakendum almennt. Breytileikinn var í kjölfarið skoðaður hjá 32.000 sjúklingum og viðmiðunarhópum á Íslandi, Nýja Sjálandi, Austurríki, Svíþjóð, Ítalíu, Hollandi og Spáni þar sem niðurstöðurnar voru staðfestar.

Meðal þess sem fram kom við rannsóknina er að breytileikinn er fátíðari hjá reykingamönnum sem reykja innan við tíu vindlinga á dag en hjá þeim sem ekki reykja. Þetta þykir renna stoðum undir þá ályktun að breytileikinn hafi ekki áhrif á það hvort fólk hefji reykingar, heldur auki hættuna á fíkn hjá þeim sem hefja reykingar.

„Þessar niðurstöður sýna mátt erfðafræðinnar til að svara flóknum heilsufarsspurningum. Við höfum ekki aðeins sýnt á sannfærandi hátt fram á tengsl eins erfðabreytileika og hegðunarmynsturs, aukinna reykinga og nikótínfíknar, heldur einnig hvernig þessi áhættuþáttur hefur í för með sér aukna hættu á að fá lungnakrabbamein og útæðasjúkdóm. Þetta er mikilvæg uppgötvun sem við munum mögulega nota í greiningarþjónustu okkar til að gera einstaklingum kleift að skilja betur og minnka heilsufarsáhættuna við reykingar,” segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Upplýsingum um breytileikann verður einnig bætt við persónulegu erfðagreiningaþjónustuna deCODEme™."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert