Rannsókn, sem bandarískir vísindamenn hafa gert, bendir til þess að heppilegast sé að kynmök standi í 3 til 13 mínútur. Niðurstöðurnar, sem birtar verða í maíhefti tímaritsins Journal of Sexual Medicine virðist þannig afsanna þá kenningu, að úthald sé lykillinn að velheppnuðu kynlífi.
Forleikur er raunar ekki talinn með í þessari tímamælingu og sérfræðingarnir segja, að samfarir sem vari aðeins í 1-2 mínútur séu of stuttar.
Eric Corty, einn af vísindamönnunum, sagðist vona að hann gæti róað þá sem héldu, að „meira af öllu góðu sé betra og ef menn vilja fullnægja félaga sínum þurfi menn að hafa endalaust úthald."
Corty sagði, að spurningar sem lagðar voru fyrir þátttakendur í rannsókninni, hafi ekki verið kynbundnar. Hann sagði hins vegar að fyrri rannsóknir hefðu sýnt, að bæði karlar og konur vilja að forleikur og samfarir vari lengur en raunin sé.
Dr. Irwin Goldstein, ritstjóri Journal of Sexual Medicine, sagði að fjögurra vikna rannsókn með þátttöku 1500 para árið 2005 hefði leitt í ljós að samfarir tóku að meðaltali 7,3 mínútur (konur voru látnar mæla þær með úri).
Marianne Brandon, sálfræðingur og framkvæmdastjóri stofnunarinnar Wellminds Wellbodies í Annapolis, sagði að karlmenn, bæði ungir og gamlir, ættu erfitt með að láta samfarir vara mikið lengur.
„Það eru svo margar goðsagnir í menning okkar um kynhegðun," sagði Brandon. „En kynlíf flestra er ekki eins spennandi og aðrir kunna að halda."