Fiskur gerir börnin greindari

Fiskur er meinhollur
Fiskur er meinhollur mbl.is/ÞÖK

„Ef konur vildu hámarka vitsmunaþroska barna sinna ættu þær að borða fisk oftar en tvisvar í viku meðan á meðgöngu stendur,“ segir dr. Emily Oken, prófessor í læknisfræði við Harvardháskóla, en hún ásamt öðrum hefur nýlokið rannsókn á áhrifum fiskáts kvenna á meðgöngu á vitsmunaþroska barna við þriggja ára aldur. Sýndu börn þeirra kvenna sem borðuðu fisk oftar en tvisvar í viku á meðgöngu meiri vitsmunaþroska en önnur börn.

Dr. Oken óttast að vegna mikillar umræðu um kvikasilfur í sjávarfangi á undanförnum árum forðist margar konur að borða fisk. „Það þarf að hvetja konur til að kynna sér hvaða fisk má borða,“ segir Oken og leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að óléttar konur borði sjávarfang.

Ekki vegna greindari mæðra

Rannsóknin byggir á gögnum um 341 mæðgur og mæðgin. Voru mæðurnar spurðar um lífsstíl og bakgrunn auk þess sem lögð voru fyrir þær ýmis próf. Þannig tókst að útiloka ýmsar aðrar skýringar, t.d. þá tilgátu að meiri vitsmunaþroski sumra barnanna væri tilkominn vegna þess að mæður þeirra væru almennt meðvitaðri um heilsuna eða greindari.

Omega 3-fitusýrur skýringin

Ekki er vitað með vissu hvað það er í fiskinum sem eykur vitsmunaþroska barnanna en rannsakendur telja sennilegast að skýringarinnar sé að leita í omega 3-fitusýrunum.

Geir Friðgeirsson, barnalæknir á Domus Medica, telur það líklegt. „Omega 3-fitusýrur eru hornsteinar í uppbyggingu miðtaugakerfisins í fóstrum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert