„Ef konur vildu hámarka vitsmunaþroska barna sinna ættu þær að borða fisk oftar en tvisvar í viku meðan á meðgöngu stendur,“ segir dr. Emily Oken, prófessor í læknisfræði við Harvardháskóla, en hún ásamt öðrum hefur nýlokið rannsókn á áhrifum fiskáts kvenna á meðgöngu á vitsmunaþroska barna við þriggja ára aldur. Sýndu börn þeirra kvenna sem borðuðu fisk oftar en tvisvar í viku á meðgöngu meiri vitsmunaþroska en önnur börn.
Dr. Oken óttast að vegna mikillar umræðu um kvikasilfur í sjávarfangi á undanförnum árum forðist margar konur að borða fisk. „Það þarf að hvetja konur til að kynna sér hvaða fisk má borða,“ segir Oken og leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að óléttar konur borði sjávarfang.
Geir Friðgeirsson, barnalæknir á Domus Medica, telur það líklegt. „Omega 3-fitusýrur eru hornsteinar í uppbyggingu miðtaugakerfisins í fóstrum,“ segir hann.