Áður fyrr voru leikjatölvur bara leikjatölvur og það var ekki ætlast til annars en að maður gæti spilað leikina sína á þær. Það sama er ekki hægt að segja um leikjatölvur í dag.
Hver ein og einasta leikjatölva, hvort sem það er sú sem maður tengir í sjónvarp eða lófatölva, býður upp á einhverja aðra möguleika en leikjaspilun. Framleiðendur eru í síauknum mæli að bæta við hlutum til þess að gera kassann verðmætari fyrir neytandann og reyna að gera hann að einhverri heildarlausn á afþreyingarvanda heimilanna. PS3 og Xbox 360 spila DVD og háskerpu-diska, tengjast öðrum tölvum á heimilinu og brátt verður hægt að taka upp stafrænar útsendingar upp úr sjónvarpinu á þeim. PSP tölvan er meira að segja orðin að síma. Segja má að Nintendo sé eina vörumerkið sem leggur minna upp úr þessum aukahlutum í sínum tölvum, Wii og Nintedo DS.
Nú á dögunum lét fyrrverandi yfirmaður leikjadeildar Microsoft I Evrópu, Sandy Duncan, hafa það eftir sér að leikjatölvan ein og sér væri á leiðinni út og eftir nokkur ár yrðu þær allar orðnar yfirfullar af aukahlutum sem gerðu það að verkum að leikjahlutinn yrði að aukaatriði. Hann telur reyndar að eftir nokkur ár verði algerlega búið að fjarlæga áþreifanlega hlutinn og öll virknin verði kominn á netið. Microsoft hefur reyndar haldið þessu fram áður hvað mynddiska varðar, en það er önnur saga. Sandy sagði hins vegar í sama viðtali að leikjavélarnar ættu enn eftir 10 ár áður en þær leystust upp og hyrfu á vit vefsins þar sem þær munu að lokum eiga eilíft líf. Við sjáum hvað setur en þangað til vonum við að breiðbandið verði orðið nógu þróað til að ráða við traffíkina.