Unglingar sem hafa sjónvarp í svefnherberginu sínu borða verr, hreyfa sig minna og fá verri einkunnir en þeir sem ekki hafa sjónvarp í svefnherbergi sínu. Þessu greinir könnun frá Háskólanum í Minnesota frá í dag.
Alls tóku 781 þátt í könnuninni á aldrinum 15 til 18 ára og var hún framkvæmd á árunum 2003 og 2004. 62% svarenda áttu sjónvarp í svefnherbergi sínu.
Það kom ekki á óvart að þeir sem höfðu sjónvarp í herberginu sínu eyddu mun meiri tíma fyrir framan tækið, allt að fimm klukkustundum meira á viku. Stelpur með sjónvarp í svefnherberginu fengu minni hreyfingu, borðuðu minna af grænmeti, drukku meira af gosdrykkjum og borðuðu færri máltíðir með fjölskyldu sinni.
Strákar sem höfðu sjónvarp í svefnherberginu sínu voru að jafnaði með lægri einkunnir. Þeir borðuðu minna af ávöxtum og einnig voru fjölskyldumáltíðir fámennari hjá þeim.
„Það bendir allt til þess að það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að meina unglingum að hafa sjónvarp í svefnherberginu,“ sagði einn rannsakandinn, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.