Vera kann, að strákum sé í blóð borinn áhugi á að leika sér fremur með leikfangabyssur og vörubíla en dúkkur og mjúkdýr, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á öpum, sem gerð var í Bandaríkjunum. Styður þetta niðurstöður annarrar rannsóknar á öpum, sem sýndi að „strákarnir“ höfðu greinilega meiri áhuga á hefðbundum strákaleikföngum.
Hundruðir rannsókn hafa verið gerðir í því skyni að greina á milli eðlislægra og áunnina hegðunarmynstra hjá litlum börnum. Það hefur þó reynst erfitt, því að þegar börn eru orðin nógu gömul til að fara að leika sér með leikföng eru þau þegar orðin félagslega mótuð af foreldrum, öðrum börnum og fjölmiðlum.
Vísindamenn við rannsóknamiðstöð í Atlanta í Bandaríkjunum ákváðu því að gera tilraun með að bjóða rhesusöpum upp á annarsvega dæmigerð strákaleikföng og hinsvegar dæmigerð stelpuleikföng, og athuga hvort greina mætti mismunandi áhuga eftir kynjum.
Viti menn, sú reyndist raunin, a.m.k. með karlapana. Þeir gripu strax í „strákaleikföngin,“ eins og til dæmis vörubíla, en sýndu mjúkum leikföngum lítinn áhuga. Kvenaparnir voru forvitnari og léku sér að bæði vörubílunum og mjúkdýrunum.
Kim Wallen, sem stjórnaði rannsókninni, sagði um apana: „Þeir hafa ekki séð neinar auglýsingar. Þeir voru ekki hvattir áfram af foreldrum og sættu ekki jafningjaþrýstingi.“
Niðurstöður rannsóknarinnar voru fyrst birtar í tímaritinu Hormones and Behaviour, og síðan var greint frá þeim á breska vefnum NewScientist.com.