„Solobacterium moorei“ heitir lífveran sem ber ber mesta ábyrgð á ólæknandi andremmu, að því er líffræðingar greindu frá um helgina á tannlæknaþingi í Dallas. Í allt að 90% tilvika stafar andremma af illa lyktandi efnum sem bakteríur á tungunni gefa frá sér.
Rannsakaður var 21 andremmusjúklingur og borinn saman við 36 manns sem ekki voru með andremmu. Í öllum sjúklingunum fannst umrædd baktería, en einungis í fjórum í samanburðarhópnum. Þessir fjórir voru aftur á móti með tannholdsbólgu, sem einnig getur leitt til andremmu.
Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður annarrar rannsóknar á andremmu, en vísindamennirnir segja að lítið sé vitað um sökudólginn. Eftir því sem þekking á honum vaxi aukist þó líkurnar á að finna megi leiðir til að stemma stigu við honum.
Sömu vísindamenn hafa komist að því, að með því að bursta tennurnar tvisvar á dag með bakteríudrepandi tannkremi og nota tannbursta með tungusköfu megi uppræta andremmu.