Ísland er í 8. sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir þær þjóðir sem eru í bestri stöðu til að nýta sér upplýsingatækni. Danir eru í efsta sæti en í næstu sætum eru Svíþjóð, Sviss, Bandaríkin, Singapúr, Finnland og Holland.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um upplýsingatækni í 127 löndum. Ísland er í 8. sæti eins og árið áður en er í 1. sæti hvað varðar umgjörð upplýsingatækninnar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi.
Upplýsingatæknivísitala World Economic Forum mælir þrjár undirstöður upplýsingasamfélagsins, þ.e. umgjörð upplýsingatækninnar, möguleika helstu hagsmunahópanna til að nýta sér tæknina og loks raunverulega notkun á upplýsingatækni.