Þeir sem einhvern tíma hafa óskað þess að vigtin á baðherberginu hafi rangt fyrir sér gætu átt góðar eða slæmar fréttir í vændum. Þýskir vísindamenn vinna nú að því endurskilgreina kílóið á nákvæmari hátt.
Kílógrammið er nú skilgreint sem massi sívalnings úr platínu, sem er geymdur í hvelfingu fyrir utan París í Frakklandi. Vísindamenn hjá Mælifræðistofnun Þýskalands ætla að nota nýja tegund mælieiningar, sílikonkúlu með 10 sentímetra þvermáli, til þess að ákvarða betri staðlaða mælieiningu, en er nú til staðar.
Massi platínusívalningsins er að minnka og vita vísindamenn ekki hvers vegna, en tilgangur verkefnisins er að finna staðlaða nákvæmari mælingu fyrir kílóið, sem er byggð á massa sílikonatóma.
Vísindamenn segja að hægt verði að reikna út öll atómin í nýrri og stöðugri sílikon mælieiningu, út frá því hvar þau eru staðsett. Sílikon einingin var framleidd í Rússlandi, Ástralíu, Þýskalandi og tók fimm ár að framleiða hana. Vísindamenn segja hins vegar að breytingin á kíló mælieiningunni verði svo lítil að einungis vísindamenn muni taka eftir henni, og hún muni sennilega ekki koma fram á baðherbergisvigtinni.