„Það er í raun og veru hægt að segja að þetta sé sjónvarp á þínum eigin skilmálum.“ Svona lýsir Baldip Singh vörunni Slingbox en hann var staddur hér á landi fyrir skömmu til að kynna vöruna fyrir tilvonandi samstarfsaðilum og öðrum áhugasömum einstaklingum.
Slingbox er tæki sem gerir notendum kleift að senda merki frá til dæmis afruglurum, DVD-spilurum og fleiru slíku, þráðlaust á milli staða í gegnum netið. Því getur fólk horft að efni úr afruglaranum sínum heima, á fartölvunni sinni í sumarbústaðnum eða á 3G-farsímanum sínum inni á kaffihúsi, að því gefnu að þráðlaust netsamband sé til staðar.
Með aukabúnaði sem ber heitið Sling Catcher geta notendur svo horft á efnið í öðrum sjónvörpum. Öll aukaþjónusta, til dæmis VOD-þjónusta Skjásins eða rafrænn dagskrárvísir er einnig aðgengileg í gegnum Slingbox. „Það sem þú getur gert á sjónvarpinu heima, geturðu gert á þessu.“
„Það sem maður þarf að hafa í huga er að hvað sem ég geri í gegnum Slingbox-ið það gerist líka heima fyrir. Við deilum ekki stöðvum og við sendum ekkert út. Þetta er einn-á-einn samband.“
Hann segir þó að um leið og fólk hafi prófað tæknina einu sinni sjái það hversu notadrjúg hún er í raun og veru. Því til sönnunar nefnir Baldip að þegar hann hafði beðið eftir flugi sínu til Íslands hafi fótboltaleikur verið í sjónvarpinu en engin sjónvörp á flugvellinum hafi sýnt frá leiknum.
„Ég sat þarna með fartölvuna mína á þráðlausu neti og horfði á fótboltann. Áður en ég vissi af höfðu safnast í kringum mig tíu vinir sem ég vissi ekki að ég ætti, sem allir vildu horfa á fótboltann og voru furðu lostnir yfir því að svona lagað væri hægt.“
Slingbox er nú þegar fáanlegt í Finnlandi og Baldip segir að búnaðurinn sé væntanlegur annars staðar á Norðurlöndum innan tíðar. Aðspurður hvenær Íslendingar geta fjárfest í svona búnaði segir Baldip að um leið og samningar hafa náðst við samstarfsaðila hér á landi muni Slingbox verða fáanlegt á Íslandi