Stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking hvatti til þess í gær að hafnir yrðu nýir landvinningatímar í geimnum, líkt og þegar Kristófer Kólumbus fann nýja heiminn. Kom þetta fram í ræðu er hann hélt í tilefni af 50 ára afmæli NASA.
„Segja má að nú sé staðan svipuð og í Evrópu fyrir 1492. Það hefði mátt halda því fram, að það væri peningasóun að senda Kólumbus út í buskann,“ sagði Hawking í ávarpinu, er hann hélt í Washington-háskóla í Georgetown.
Landvinningar í geimnum myndu hafa enn meiri áhrif á framtíð mannkynsins en fundur Ameríku, og „jafnvel ráða úrslitum um hvort við eigum yfirleitt einhverja framtíð fyrir okkur.“
Hugmyndir Hawkings fela í sér langtíma geimkönnunarverkefni sem m.a. fæli í sér byggingu tilraunabúða á tunglinu innan 30 ára, og hönnun nýs knúningskerfis sem hægt væri að nota við plánetuleit fyrir utan okkar sólkerfi á næstu 200-500 árum.