Sala á farsímum jókst í fyrsta ársfjórðungi en alls voru seldir 282 milljónir farsíma í fjórðungnum samkvæmt frétt frá Strategy Analytics. Enn sem fyrr eru það Nokia símar sem eru vinsælastir en markaðshlutdeild Nokia er 41%.
Samsung er í öðru sæti listans með 16% markaðshlutdeild og Motorola er í þriðja sæti með 10% markaðshlutdeild.
Samkvæmt upplýsingum frá Strategy Analytics er það einkum mikil eftirspurn frá nýmarkaðslöndum í Asíu og Afríku sem skýrir aukna sölu á farsímum á fyrsta ársfjórðungi. Kóreönsku farsímaframleiðendurnir LG og Samsung auka mest hlutdeild sína á markaðnum og er LG ekki langt frá því að fara fram úr Motorola hvað sölu varðar. Markaðshlutdeild LG er 8,6% en var 7,2% í ársbyrjun.