Áhrif brjóstamjólkur á greind barna

Brynjar Gauti

Æ fleiri rannsóknir benda til þess að börn sem nærast á brjóstamjólk á fyrstu þremur mánuðum ævinnar séu með hærri greindarvísitölu heldur en þau sem fá þurrmjólk. Í nýrri rannsókn sem unnin var við McGill háskólann í Kanada kemur fram að börn sem fengu brjóstamjólk fengu fleiri stig í mælingu á greindarvísitölu við sex ára aldur.

Ekki er hins vegar vitað hvort það er brjóstamjólkin eða tengslin sem myndast við brjóstagjöfina sem hefur þessi jákvæðu áhrif. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Rannsókn McGill háskólans náði til 14 þúsund barna og er niðurstaða hennar svipuð og fjölda annarra rannsókna á þessu sviði. Hins vegar hefur ekki tekist að sanna það í fyrri rannsóknum að það sé móðurmjólkin sem hafi þessi áhrif, samkvæmt frétt BBC. Því staðreyndin sé sú að mæður sem búa við betri kjör eru líklegri til þess að vera með börn á brjósti og að það séu fjölskylduaðstæður sem hafi áhrif á gáfnafar.

Í þessari rannsókn var reynt að taka þetta með í útreikninga þar sem fylgt var eftir börnum sem fæddust á sjúkrahúsi í Hvíta-Rússlandi. Hluti barnanna fékk brjóstamjólk en önnur ekki og komu börnin úr öllum þjóðfélagshópum.

Börnin sem fengu eingöngu brjóstamjólk fyrstu þrjá mánuðina stóðu sig almennt betur á greindarprófi sem lagt var fyrir hópinn er þau voru sex ára gömul. Fengu þau að meðaltali 5,9 fleiri stig á greindarprófinu en þau sem fengu þurrmjólk. Einhver barnanna voru á brjósti í allt að eitt ár frá fæðingu. Eins vitnuðu kennarar um að börnin sem fengu brjóstamjólk stæðu sig mun betur í skóla hvort heldur sem það væri lestur eða skrift.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka