Í meira en öld hafa líkamsleifar leikritaskáldsins Friedrich Schillers valdið mönnum heilabrotum og tvær höfuðkúpur fundist sem átt hafa að tilheyra skáldinu. Vísindalegar rannsóknir á þeim hafa nú leitt í ljós að hvorug er í raun frá Schiller komin. Önnur var í kistu leikritaskáldsins, en hin í lítilli ómerktri kistu við hlið hennar.
„Það fannst engin samsvörun í samanburði við erfðaefni ættingja hans,“ segir Julia Glesner hjá Samtökum um klassískar bókmenntir í Weimar, en samtökin hafa umsjón með grafreitnum þar sem Schiller hvílir við hlið vinar síns Johann Wolfgang vonGoethe.
Ráðgátan á rætur sínar í því að árið 1805 þegar Schiller lést var hann jarðaður í fjöldagröf í Weimar. Tveimur áratugum síðar valdi borgarstjórinn eina af 23 höfuðkúpum úr gröfinni og mat það svo að þar sem hún var óvenju stór, þá hlyti hún að hafa tilheyrt skáldinu. Hún var síðan geymd með beinum skáldsins þar til þeim var komið fyrir í reitnum við hlið Goethes.