Fönix nálgast Mars

Bandaríska geimfarið Fönix er nú komið í námunda við Mars eftir níu mánaða ferðalag, og segir NASA að farið muni lenda á reikistjörnunni 25. maí, eins og áætlað hafi verið. Markmið leiðangursins er að leita að vísbendingum um líf á Mars.

Talsmaður NASA sagði að björninn væri þó fráleitt enn unninn því að það væri miklum erfiðleikum háð að koma Fönix heilum á húfi niður á yfirborð reikistjörnunnar. Innan við helmingur þeirra tilrauna sem gerðar hafi verið til þess í heiminum hafi tekist.

Hitastigið á yfirborðinu, þar sem Fönix á að lenda, er frá 33 stiga frosti og niður í 73 stig.

Fönix er búinn 2,35 metra löngum armi sem ætlunin er að reka niður í yfirborðið í þeirri von að hann nái niður í ísskelina sem talið er að þar sé að finna. Armurinn mun taka sýni úr yfirborðinu, og tækjabúnaður um borð í Fönix á síðan að efnagreina þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert