Risastjórar kyrkislöngur sem geta gleypt heilu hundana og jafnvel krókódíl eru sífellt að gera sig heimakomnari á Suður-Flórída, og hætt er við að þær taki sér bólfestu í öðrum suðuausturríkjum Bandaríkjanna, samkvæmt nýrri rannsókn.
„Líklegt er að kyrkislöngur nemi land alls staðar þar sem krókódíla er að finna, þ.á m. í norðurhluta Flórída, Georgíu og Louisiana,“ segir Frank Mazzotti, prófessor við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Háskólans í Flórída, í rannsókn sinni.
Kyrkislöngurnar sem er að finna á Flórída eru flestar ættaðar frá Búrma, þaðan sem komið var með þær sem gæludýr en þeim síðan sleppt.
Á árunum 2000-2005 gómuðu yfirvöld 201 slíka slöngu en á undanförnum tveimur árum hefur fjöldinn sem handsamaður hefur verið tvöfaldast, og ríflega það, í 418, segir Mazzotti í rannsókn sinni, sem birt er á vef háskólans.
Stærsta slangan sem náðst hefur í Flórída var fimm metra löng og 70 kílóa þung.
Kyrkislöngur eru ekki eitraðar. Mazzotti segir þær duglegar að synda og geta ferðast um langan veg á skömmum tíma. Talið er að á fenjasvæðunum í Flórída sé að finna um 30.000 kyrkislöngur.
Þær hafa mikla aðlögunarhæfni og éta aðallega lítil dýr á borð við ketti, hunda, héra, refi, íkorna, þvottabirni og jafnvel krókódíla.