Ómannað könnunarfar NASA, Mars Phoenix-geimfarið, á að lenda nærri norðurskauti Mars á sunnudag. Dr. Haraldur Páll Gunnlaugsson, prófessor við Árósaháskóla í Danmörku, er einn helsti Mars-sérfræðingur Íslands og er í hópi alþjóðlegra vísindamanna sem sjá um mælingar geimfarsins á yfirborði mars, en hann hannaði vindmæli fyrir geimfarið.
Haraldur fylgist með lendingunni á Mars í Arizona í Bandaríkjunum. Hann segir að hlutverk hans eins og annarra 100 til 200 vísindamanna verði að skoða gögnin og taka ákvarðanir um næstu skref, en hann er í hópi sex vísindamanna frá Danmörku. Haraldur segist alltaf hafa haft áhuga á jarðfræði og unnið að rannsóknum á Mars í tvo áratugi, en yfirborð Mars líkist mest hálendi Íslands. Hann hafi unnið við Mars Pathfinder-geimfarið 1997 og unnið áfram að Mars-rannsóknum í Árósum þar sem séu vindgöng, en þau hafi verið nauðsynleg til þess að hanna umræddan vindmæli.
Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 158 í VR-II, húsi Verkfræði- og raunvísindadeildar, við Hjarðarhaga kl. 16:15.