Læknir í Boston í Bandaríkjunum sætir nú harðri gagnrýni fyrir að bjóða upp á meðferð fyrir börn sem ætlað er að auðvelda þeim að gagnast undir kynskiptameðferð síðar á ævinni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Læknirinn Dr Norman Spack, sem starfar við Boston's Children's Hospital, hóf að bjóða upp á meðferðina á síðasta ári en hún felst í því að börnunum, allt niður í sex ára, eru gefin hormónalyf til að tefja kynþroska þeirra.
Er það gert með það að markmiði að veita þeim meiri tíma til að móta sjálfsímynd sína áður en þau ákveði af hvoru kyninu þau vilji vera.
Spack segir að velji börnin síðar að hætta meðferð og halda kyni sínu óbreyttu hafi meðferðin engin langtímaáhrif á þau. Velji þau hins vegar að skipta um kyn, geri meðferðin læknum mun auðveldara að kalla fram þær líkamlegu breytingar sem óskað sé eftir.
Þá staðhæfir hann að meðferðin dragi úr sjálfsmorðstíðni barna sem séu ekki viss um kynskynjun sína og kynhneigð. „Sjálfsmorðtíðni er há meðal barna með óljósa kyntilfinningu,” segir hann. „Af þeim sjúklingum sem flúið hafa England og leitað til mín, höfðu þrír af fjórum gert alvarlegar sjálfsvígstilraunir,” segir hann í viðtali við blaðið The Boston Globe.„
Ég hef aldrei frétt af sjálfsvígtilraunum meðal þeirra sem hafa hafið slíka meðferð.Dr Paul McHugh, prófessor í geðlækningum við John Hopkins háskolann í Bandaríkjunum, telur hins vegar mun meiri líkur á að slík meðferð skaði ungmenni en að hún hjálpi þeim. „Hormónameðferð skaðar börnin og eykur einungis á rugling þeirra,” segir hann í viðtali við Fox News. „Tilraunir til að seinka kynþroska og breyta kyni er alvarleg röskun á eðlilegum gangi náttúrunnar.
Austin Nimocks, lögfræðingur samtakanna Alliance Defence, varar einnig við því að slíkt geti haft dómsmál í för með sér í framtíðinni. „Það mun koma að því að foreldrum og læknum sem standa að slíku verði stefnt og þeir jafnvel handteknir fyrir að skaða börnin,” segir hann. „Það að hægt sé að gera ákveðna hluti læknisfræðilega þýðir ekki það að rétt sé að gera þá,” segir hann.