Vísindamenn segjast hafa fundið ný sönnunargögn sem bendi til þess að íshellan á norðurheimskautssvæðinu sé að klofna. Vísindamennirnir voru í leiðangri nyrst í Kanada ásamt kanadíska hernum þegar þeir fundu ný stór sprungusvæði.
Margar sprungur fundust sem ná yfir um 16 km langt svæði á Ward Hunt, sem er stærsta íshellan á norðurhluta Kanada.
Þær breytingar sem eru að eiga sér stað á heimsskautssvæðinu eru sagðar vera mikilvæg vísbending um áhrif loftlagsbreytinga.
Í viðtali við blaðamann BBC viðurkennir einn vísindamannanna, Derek Mueller hjá Trent háskólanum í Ontario, að það hafi komið honum á óvart að sjá þessar nýju sprungur.
„Þetta þýðir að íshellan sjálf er að sundrast, stykkin festast saman eins og púsl en þau geta flotið í burtu,“ sagði Mueller.
Annar vísindamaður, Luke Copland hjá háskólanum í Ottawa, segir að nýju sprungurnar tengist því breytingarferli sem sé að eiga sér stað á norðurheimsskautssvæðinu.
„Við erum að verða vitni að stórbrotnum breytingum. Bæði hvernig jöklarnir eru að hörfa og hvernig íshafið er að bráðna,“ segir hann.