Kynlífsáhugi karla minnkar

Rob Lowe er yfirlýstur kynlífsfíkill og á því ekki við …
Rob Lowe er yfirlýstur kynlífsfíkill og á því ekki við umræddan vanda að etja. Hér er hann með eiginkonu sinni Sheryl Lowe. Reuters

Tilkoma örvunarlyfja fyrir karlmenn á borð við Viagra hefur gert það að verkum að æ fleiri karlar neyðast nú til að viðurkenna að þeir nenni hreinlega ekki að stunda kynlíf. Þetta segir breski sérfræðingurinn Peter Bell, sem starfar hjá ráðgjafafyrirtækinu Relate. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Bell segir að 40% fjölgun hafi orðið í hópi þeirra karla sem leiti sér aðstoðar vegna áhugaleysis um kynlíf frá tilkomu Viagra .„Karlar sem kynlífsvandamál hafa talað um getuleysi en sá vandi hefur Viagra að mestu leyst,” segir hann. „Nú sjáum við hins vegar fjölda karla sem upplifa það sama og margar konur upplifðu á fimmta áratugnum. Líkamlega stendur ekkert í vegi fyrir því að þeir stundi kynlíf en þeir hafa engan áhuga á því þar sem þeir fá ekkert út úr því".

Þá segir hann að um helmingur þeirra karla sem leiti til hans nú segist vera algerlega áhugalausir um kynlíf en að fyrir tíu árum hafi karlar næstum aldrei sagt það vera vandamál. „Skortur á  kynlífslöngum er aðallega vandamál á meðal kvæntra karla á aldrinum 30 til 60 ára," segir hann í viðtali við The Guardian.

Segist hann telja ástæðuna m.a. vera þá að konur geri orðið meiri kröfur í kynlífi og að karlar séu oft undir miklum þrýstingi að sinna þeim.  Ráðgjafinn Cary Cooper tekur í sama streng og segir karla oft hafa minni skilning á eigin tilfinningum en konur auk þess sem þá  vanti oft félagslegan stuðning.  Einnig dragi vinnutengt álag úr kynlífslöngun margra karla.

Michael King, prófessor við University College Medical School í London telur vandann hins vegar tengjast útbreiðslu þunglyndis en algengst er að karlar þjáist af þunglyndi á aldrinum 30 til 50 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert