Ungt fólk finnur fyrir fréttaþreytu vegna þess að staðreyndum og fréttaskotum er dembt yfir það og það á sömuleiðis erfitt með að komast inn í ítarlegar fréttaskýringar. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem kynnt er í dag á alþjóðlegri fjölmiðlaráðstefnu.
Rannsóknin sýndi líka fram á að fréttalestur ungs fólks í dag er mjög frábrugðinn fréttalestri eldri kynslóða.
Rannsóknin sem var gerð að beiðni AP árið 2007 greindi fréttalestur ungs fólks á aldrinum 18- 34 ára í sex borgum Bandaríkjanna, Bretlands og Indlands. Í kjölfar niðustaðna breytti AP framsetningu frétta sinna og tók meðal annars upp kerfið „1,2,3 skjölun". Þá er byrjað á fyrirsögn á nýrri frétt og í kjölfarið kemur stutt frétt í nútíð sem heppileg er fyrir vefframsetningu og fréttaþuli. Þriðja skrefið er bæta við smáatriðum og laga framsetningu fréttar að mismunandi miðlum.
Ritstjórar breska blaðsins Daily Telegraph tóku þetta einnig til greina og hafa síðan séð mikla uppsveiflu í vefumferð.
Lykilatriði í niðurstöðum rannsóknarinnar var að þátttakendur þráðu gæði og ítarleg fréttaskrif en áttu á sama tíma í erfiðleikum með að komast inn í slíkt efni af því að þeir voru kaffærðir af staðreyndum og framhaldsfréttum með fyrirsögnum og fréttaskotum.
Einnig kom fram að þátttakendur gátu ekki einbeitt sér fyllilega að fréttalestrinum því á meðan þeir voru að lesa fréttir voru þeir að gera aðra hluti, til dæmis að lesa póstinn sinn. Þetta gerir unga fólkið mjög frábrugðið eldri kynslóðum sem setjast niður til að horfa á fréttir eða lesa dagblaðið. Sem mótvægi við þetta mæltu höfundar skýrslunnar með því að fréttamiðlar þróuðu leiðir til að gera fréttaskýringar aðgengilegri og drægju úr endurteknum framhaldsfréttum.