Friðbert Jónasson, prófessor í augnlækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús, tók í gær ásamt Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við verðlaunum sem veitt eru á sviði augnlækninga.
Heimssamtök um augnsjúkdóminn gláku standa að verðlaununum en þau eru veitt fyrir mesta afrek ársins á sviði glákurannsókna. Nærri lætur að glákublinda sé næstalgengasta orsök blindu í heiminum.
Verðlaunin eru veitt vegna sameiginlegrar uppgötvunar íslenskra vísindamanna á sviði augnlækninga og vísindamanna sem starfa hjá Íslenskri erfðagreiningu. Verðlaunin eru 25.000 Bandaríkjadalir.
Í rannsókninni, sem tryggði Íslendingunum tveimur verðlaunin, fannst gen sem stýrir svokallaðri flögnunargláku, sem er mjög algeng hérlendis. Gláka einkennist af hækkuðum augnþrýstingi sem veldur dauða taugafrumnanna í sjóntauginni. Þetta leiðir til þess að sjónsviðið skerðist og seinna meir hlýst blinda af sjúkdómnum ef ekkert er aðhafst. Allir geta fengið gláku en sumir eru í meiri hættu en aðrir. Hætta á gláku eykst með aldrinum og þó sérstaklega eftir 60 ára aldur. Svokölluð flögnunargláka er versta gláka hérlendis og í nágrannalöndunum að Danmörku frátalinni, samkvæmt tilkynningu.