Karlar kjósa fremur einlífi en slæmt hjónaband

Gagnkynhneigðir og ólofaðir karlmenn eru yfirleitt ekki hræddir við að ganga í hjónaband, en þeir óttast mjög að lenda í slæmu hjónabandi, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem ástralskur piparsveinn gerði til að komast að því  hvers vegna hann og sífellt fleiri karlmenn sniðganga hjónabandið.

Ástralinn ókvænti heitir Carl Weisman og er 49 ára verkfræðingur. Hann kannaði hug 1.533 gagnkynhneigðra manna til að safna efni í bók sem á að gefa konum innsýn það í hvers hvegna margir vel gefnir karlmenn sem gengur vel í lífinu kjósa að búa einir.

Einnig langaði Weismann til að hjálpa eilífðarpiparsveinum að átta sig á því hvers vegna þeir hafi aldrei bundist. 

Helsta niðurstaða hans var sem að ofan greinir, að það sé óttinn við að enda í slæmu hjónabandi sem komi í veg fyrir að margir menn kvænist.

„Karlmenn eru tífalt hræddari við að kvænast rangri konu en við að kvænast aldrei,“ sagði Weisman við fréttastofu Reuters.

„Þetta er fyrsta kynslóðin sem hefur upplifað slæma skilnaði [foreldra sinna] í uppvextinum. Fólk heldur að það sé eitthvað að manni ef maður finnur sér ekki konu, en þetta eru menn sem hafa farið aðra leið og ekki látið undan félagslegum þrýstingi.“

Weisman segir að samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum hafi um sex prósent rúmlega fertugra karla verið ókvæntir árið 1980, en nú sé þetta hlutfall komið í 17 prósent.

Rannsókn Weismans leiddi margt forvitnilegt í ljós, en einna mest afgerandi voru tölurnar yfir þá þátttakendur sem sögðust óttast mjög að kvænast konu sem þeir ættu í rauninni ekki samleið með. Þetta sagði um  helmingur þeirra 72% þátttakenda sem kvaðst ekki óttast að ganga í hjónaband.

Einnig kom í ljós að peningamál, bæði neikvæð og jákvæð, áttu stóran þátt í því að menn hikuðu við að kvænast.

„Þeir sem áttu lítið af peningum sögðust ekki hafa neitt að bjóða maka, og sumir höfðu af þessum sökum lítið sjálfstraust og hættu að leita sér að konu. Þeir sem voru fjárhagslega vel stæðir óttuðust mjög hvaða afleiðingar skilnaður kynni að hafa fyrir sig.“

Weisman sagði að rannsókn sín hafi hrakið allar hugmyndir um að einhleypir menn væru óhamingjusamir. Það hafi verið eftirtektarvert hversu ánægðir margir þeirra væru þótt þeir hafi aldrei kvænst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert