Niðurstöður tilraunar með nýja meðferð við skalla, sem breskir vísindamenn hafa þróað, virðast lofa góðu. Er aðferðin í því fólgin að taka lítið eitt af þeim hárfrumum sem eftir eru, láta þær fjölga sér á rannsóknarstofu og græða þær síðan aftur í skallasvæði.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en vísindamennirnir kynntu niðurstöður sínar á ráðstefnu á Ítalíu. Aðferðin nýja var þróuð á vegum fyrirtækisins Intercytex.
Sex mánuðum eftir meðferð hafði nýtt hár vaxið á 11 af 19 þátttakendum í tilrauninni, að því er vísindamennirnir sögðu. Þó þurfi að þróa aðferðina betur til að hárið sem vex lítið eðlilega út.
Frumur eru teknar úr hársverði þar sem enn er hárvöxtur, í flestum tilvikum á hnakkanum. Þær eru síðan baðaðar upp úr sérstöku efni á rannsóknastofu áður en þær eru græddar í skallasvæði.
Þótt þátttakendur í rannsókninni hafi verið tiltölulega fáir benda niðurstöðurnar til þess að flestir sem eru með skalla ættu að geta fengið á honum nokkra bót, segja vísindamennirnir. Auk þess sé þessi aðferð alveg hættulaus.