Nokkuð algengt er að karlar finni fyrir þunglyndi í kjölfar fæðingar barna sinna þrátt fyrir að umræða um fæðingarþunglyndi hafi fram til þessa nær eingöngu snúist um konur. Þetta segir Svend Aage Madsen, yfirgeðlæknir við danska Ríkisspítalann. Þetta kemur fram á danska vefnum Navlestreng.
„Það leikur ekki nokkur vafi á því að litið er framhjá körlum í þessu sambandi, en við því er svo sem ekkert að segja. Það fyrst talað um þetta árið 2002 og rannsóknin var gerð árið 2006 þannig að þetta er enn nýtt fyrir fólki. Þetta var svipað þegar ég fór fyrst að vinna með fæðingarþunglyndi kvenna á áttunda áratugnum,” segir Madsen stjórnaði einu rannsókninni sem gerð hefur verið á fæðingarþunglyndi karla í Danmörku.
Madsen hefur meðhöndlað um 130 karla vegna fæðingarþunglyndis og segir hann að unnið sé að því á Ríkisspítalanum að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í að aðstoða menn sem eiga við þetta vandamál að stríða.
600 karlar tóku þátt í rannsókninni sem leiddi í ljós að um 7% nýbakaðra feðra finna fyrir þunglyndiseinkennum fyrstu sex vikurnar eftir fæðingu barna sinna. Aðrar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að 10 til 14% nýbakaðra mæðra finna fyrir þunglyndiseinkennum í kjölfar fæðinga barna sinna.