Skáldsaga um EVE tölvuleikinn

Mynd tekin úr nýrri útgáfu Eve Online sem fer út …
Mynd tekin úr nýrri útgáfu Eve Online sem fer út næstu nótt. CCP/Eve Online

CCP sem framleiðir tölvuleikinn EVE Online sendir frá sér skáldsögu þann 19.júní. Í nótt kemur út ný uppfærsla á leiknum.

Allt frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á baksögu leiksins EVE og sögusviðið sýnt í formi greina sem hafa birst á vef CCP. Þá hafa verið skrifaðar tvær stuttar skáldsögur, svokallaðar nóvellur, sem einnig hafa birst á vefnum. Eru jafnvel dæmi um það að fólk hafi byrjað að spila leikinn vegna baksögunnar.

Síðan leikurinn kom út hefur áherslan verið á tölvuleikinn sjálfan og stöðugum endurbótum á honum en söguþráðurinn hins vegar ekki keyrður áfram eins og menn höfðu þó hugsað sér í byrjun. Nú hyggst CCP ráða bót á þessu og kemur því út skáldsaga þann 19.júní sem nefnist The Empyrean Age.

„Þótt þetta dýpki hins vegar söguna fyrir þeim sem eru að spila þá er sagan þannig skrifuð að hún á að höfða til allra sem hafa áhuga á vísindaskáldsögum. Það er mikið snilldarverk að höfundi skuli hafa tekist svo vel til að sameina þessi tvö markmið,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.

Höfundur sögunnar, Tony Gonzales, skrifaði nóvellurnar tvær sem áður hafa verið birtar en The Empyrean Age er hans fyrsta skáldsaga. Sagan hefur verið í undirbúningi í 2 ár og hafði Tony sér til halds og trausts hóp fólk innan CCP sem unnið hefur að baksögu leiksins.

Bókin er gefin út í samstarfi við bókaútgáfuna Orion í Bretlandi og er hægt að kaupa hana þar í gegnum Amazon. „Við erum að þreifa fyrir okkur með útgáfu á öðrum landsvæðum,“ segir Hilmar. „Svo njótum við þess að hafa keypt fyrirtæki í Bandaríkjunum, White Wolf, sem kemur að bókaútgáfu. Þeir munu mögulega aðstoða með útgáfu þar.“

Aðfaranótt miðvikudags verður svo ný uppfærsla á leiknum send út. Sagan og uppfærslan spegla að flestu leyti hvort annað. Í EVE heiminum eru fjögur heimsveldi og milli þeirra er búið að vera kalt stríð. Nú hefur hins vegar soðið upp úr og stríð brýst út. Er þetta rakið í sögunni. Leikmenn munu geta valið hliðar í þessu stríði og tekið þátt í því. Hingað til hafa að sjálfsögðu verið stríð í leiknum en menn hafa þá verið að berjast um ómörkuð landssvæði fyrir leikmannafyrirtækjasamsteypur.

Hilmar segir mikla stemningu ríkja meðal leikmanna fyrir leikuppfærslunni. „Það kemur í raun á óvart hvað hún hefur valdið miklum spenningi því það er stutt síðan að við sendum út nýja útgáfu leiksins þar sem miklu var breytt. Fólk var mjög spennt fyrir síðustu útgáfu en ég myndi segja að það væri jafnvel enn spenntara fyrir þessari!“

EVE Online hefur í dag rúmlega 230.000 áskrifendur í 190 löndum.  Býst Hilmar fastlega við því að þeim fjölgi verulega í kjölfar nýju útgáfunnar, það hafi verið reynslan til þessa.

Hér má sjá nánari upplýsingar um EVE og nýju uppfærsluna: Eve Online

Hér er hlekkur á bókina á Amazon.

Hilmar Veigar Pétursson er framkvæmdastjóri CCP sem gefur út tölvuleikinn …
Hilmar Veigar Pétursson er framkvæmdastjóri CCP sem gefur út tölvuleikinn Eve Online. Mbl/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert