Plútó fellur í nýjan flokk hluta í geimnum

Plútó og mánar hans þrír, Charon, Nix og Hydra
Plútó og mánar hans þrír, Charon, Nix og Hydra Reuters

Plútó, sem þar til fyrir tæpum tveim árum flokkaðist sem reikistjarna, fellur nú í nýjan flokk hluta úti í geimnum, svonefnd „plútóíð“ (plutoid), sem nefnd á vegum Alþjóðasambands stjörnufræðinga (IAU) hefur ákveðið að kalla skuli litla og nær hnöttótta hluti sem eru á braut í grennd við Neptúnus.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Ákvörðun allsherjarþings IAU 2006 að svipta Plútó stöðu reikistjörnu, eða plánetu, og flokka hann sem „dvergplánetu“ vakti mikla athygli og gagnrýni.

En talið var nauðsynlegt að endurflokka Plútó þar sem ný sjónaukatækni hafði leitt til þess að áður en langt um liði yrðu yfir fimmtíu „reikistjörnur“ í sólkerfinu.

Þar af leiðandi tóku félagar í IAU þá sögulegu ákvörðun að endurskilgreina sólkerfið þannig að í því séu einungis átta reikistjörnur.

Í tilkynningu frá Smáhlutanafnanefnd IAU, sem fundaði í Ósló fyrr í vikunni, segir að dvergplánetur sem eru handan við Neptúnus skuli falla í nýjan undirflokk, plútóíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka