Hollenskir tölfræðingar hafa komist að því, að þvert á alla hjátrú er föstudagurinn 13. ekki meiri ógæfudagur en aðrir föstudagar, nema síður sé. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar þeirra, sem birt var í gær, er minna um slys og óhöpp á föstudögum sem ber upp á 13. dag mánaðarins.
Tryggingatölfræðimiðstöð Hollands birti niðurstöður rannsóknar sinnar í gær.
„Ég á erfitt með að trúa því að ástæðan sé sú, að fólk gæti betur að sér eða haldi sig einfaldlega heimavið, en tölfræðilega er hættan á að lenda í umferðarslysi lítið eitt minni á föstudaginn 13,“ segir Alex Hoen, tölfræðingur hjá miðstöðinni, í viðtali við tímaritið Verzekerd.
Undanfarin tvö ár hafa hollensk tryggingafélög fengið að meðaltali 7.800 tilkynningar um umferðarslys á hverjum föstudegi, en meðaltal slíkra tilkynninga á þeim föstudögum sem ber upp á 13. er 7.500. Einnig voru lítið eitt færri brunar og þjófnaðir, en að vísu var eignatjón lítið eitt meira á föstudaginn 13.