Í dag er þriðja útgáfan af netvafranum Firefox frumsýnd og er fólki heimilt að hlaða hann niður sér að kostnaðarlausu. Um 14% netnotenda styðjast við Firefox en framleiðandinn, Mozilla vonast til að setja niðurhalsmet í dag.
„Þetta er hnattræn tilraun til að komast á spjöld sögunnar," sagði Paul Kim markaðsstjóri Mozilla við fréttavef BBC en stefnt er að því að fá sem flesta til að hala niður sama hugbúnaðinum á einum sólarhring.
Engar tölur eru til yfir slíkt met fyrir en hjá Mozilla sögðu menn að fimm milljón niðurhöl væri draumatala þeirra.
Þegar Firefox 2.0 útgáfan fór í loftið 24. október 2006 hlóðu 1,6 milljónir notenda hana niður en ríflega 1,3 milljónir hafa þegar heitið því að hlaða nýju útgáfunni niður í dag.
Internet Explorer hefur stærstan skerf vafrararmarkaðarins eða 83,27% en Firefox er í öðru sæti með 13,76% og Apple Safari í þriðja sæti með 2,18%. Opera er með 0,55% og Netscape með 0,14%.
Samkvæmt fréttavef BBC er nýja útgáfa Firefox með viðvaranir til notenda ef þeir fara inn á vefsíður sem innihalda vírusgildrur og aðstoða notendur einnig við að finna síður sem þeir hafa farið á þrátt fyrir að þeir hafi ekki merkt við þær eða muni ekki alla netslóðina.