Suður-kóreska fyrirtækið RNL Bio hefur einræktað (klónað) fjóra hunda sem munu hafa það hlutverk að þefa uppi krabbameinsfrumur í fólki. Vísindamenn víða um heim rannsaka nú hvort hundar geti þefað uppi nokkrar tegundir krabbameins á frumstigi, en talið er að krabbameinsfrumur gefi frá sér lykt sem er alls ólík lykt heilbrigðra fruma.
Hvolparnir eru af retriever-kyni og klónar japansks hunds sem hafði verið þjálfaður í þeftækninni af vísindamönnum í Japan. Eftir að hafa hlotið þjálfun verða hvolparnir seldir fyrir um 40 milljónir króna hver.
RNL bio er frumkvöðull á sviði klónatækni í Kóreu og tók nýlega við pöntun frá konu sem vildi greiða sem nemur 11 milljónum króna fyrir klón af dauðum pitbull-hundi sínum.