Plánetur á ferðalagi

Þrjár plánetur sem Josh Simpson hefur búið til. Margar slíkar …
Þrjár plánetur sem Josh Simpson hefur búið til. Margar slíkar er að finna víðs vegar um heiminn.

Glerlistamaðurinn Josh Simpson er staddur hér á landi ásamt eiginkonu sinni, Dr.  Catherine Coleman, geimfara hjá NASA. Héldu þau fyrirlestur í Háskóla Reykjavíkur í dag um þessi ólíku áhugasvið, geiminn og glerlistina. Dr Coleman fjallaði um meðal annars um alþjóðlegu geimstöðina, hvernig það væri að búa um borð í geimferju og geimstöð og hvernig geimfarastarfið samrýmdist fjölskyldunni.

Eilífðarverkefnið

Meginefni fyrirlestrar Simpson var verkefni hans, Infinity Project, eða Eilífðarverkefnið. Aðalsmerki Simpson eru glerkúlur sem hann nefnir plánetur. Verkefnið felst í því að koma þessum plánetum fyrir á ýmsum stöðum í heiminum og skipta þessar földu plánetur nú þúsundum. Í fyrstu kom hann þeim fyrir sjálfur á ferðalögum sínum um heiminn en nú getur hver sem er sótt um að fá að koma plánetu fyrir í gegnum heimasíðu hans. Ef honum líst vel á staðinn sendir hann tvær kúlur, eina til að koma fyrir og eina handa umsækjandanum.

Kúlur við dyraþrepið 

Hugmyndin kviknaði fyrst þegar hann rakst á sex marmarakúlur við dyraþrepið heima hjá sér. Kúlurnar höfðu grafist niður og var greinilega langt síðan að þær höfðu endað þarna. Þá fór Simpson að velta fyrir sér hve gler varðveitist lengi. Árið 1976 fór hann að pæla í að ekkert safn átti verk eftir hann. Hins áttu þau þó nokkra glermuni sem fornleifafræðingar höfðu fundið hér og þar. Honum datt þá í hug að hann gæti sjálfur gert eitthvað í þessu og fór að fela kúlurnar á stöðum þar sem líklegt var að fornleifafræðingar ættu eftir að róta í síðar.

Frá Hvíta húsinu til Suðurskautsins 

Hann víkkaði þetta síðan og fór að koma þeim fyrir á stöðum sem voru mikilvægir í stjórnmálalegu tilliti og að lokum á stöðum sem voru mjög afskekktir. Árið 2000 ákvað hann svo að opna verkefnið almenningi. Kúlurnar er að finna á hinum ýmsustu stöðum: Í Hvíta húsinu, í Taj Mahal, á Suðurskautinu, á hafsbotni og svo mætti lengi telja. Kúlur hafa líka farið út í geiminn en þó alltaf komið til baka.

Kúlurnar rata til Íslands 

Á síðu Josh Simpson má sjá lista yfir þá staði sem kúlur hafa verið settar á og þar má sjá að þrjár kúlur hafa ratað til Íslands þótt ekki sé tilgreint hvar nákvæmlega þær eru. Simpson tilkynnir blaðamanni Mbl líka lymskufullur á svip að mögullega hafi einni kúlu verið komið fyrir í Reykjavíkurtjörn í dag og einni verður komið fyrir við tré í borginni. Sennilega eiga einhverjar kúlur eftir að finna sér heimkynni á Akureyri á morgun.

Þau hjónin Dr Catherine Coleman og Josh Simpson eru hér á landi í boði bandaríska sendiráðsins.

Síða um Dr. Catherine Coleman

Síða Josh Simpson 

Dr. Catherine Coleman
Dr. Catherine Coleman
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert