Líkur eru á að innan tíðar muni verða hægt að kaupa eða leigja orð til að búa til ný rótarlén í netheimum og þá verða lén á borð við heillandi.kona eða sætur.strákur hugsanlega tekin í gagnið í stað .is eða .com, .net og .org sem nú eru í umferð.
Reiknað er með þessari byltingu í netheimum nú í vikunni því ICANN samtökin sem hafa yfirumsjón með reglum um netföng og lén hyggjast gefa endingar á netföngum eða svokölluð rótarlén frjáls.
ICANN mun funda í París nú í vikunni og ræða hvernig bregðast megi við þeim skorti á lénum sem steðjar að notendum netsins því reiknað er með að netnotendur sem í dag eru um 1,3 milljarðar muni klára öll möguleg lén í kringum árið 2011 ef ekki verði gripið til þessara rýmkana.