Glaðlyndir fara sér fremur að voða

Lengi hefur verið talið að hláturinn lengi lífið
Lengi hefur verið talið að hláturinn lengi lífið Reuters

Nýjar rannsóknir sýna að skapgerðareinkenni fólks hafa mun meiri áhrif á heilsu þess og lífslíkur en hingað til hefur verið talið. Þá kemur á óvart að niðurstöður rannsóknar sem unnin var við Kaliforníu-háskóla benda til þess að meiri líkur eru á að mjög glaðlynt fólk látist fyrir aldur fram en þeir sem eru þyngri í skapi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

"Börn sem foreldrar og kennarar segja glaðvær og með ríka kímnigáfu  deyja fyrr á fullorðinsárum en þau sem ekki eru jafn glaðvær," segja vísindamennirnir sem unnu rannsóknina í breska blaðinu The Daily Mail. Þá  segja þeir eina hugsanlega skýringu á þessu vera þá að jákvætt og glaðvært fólk vanmeti hætturnar í lífinu og fari sér því fremur að voða en aðrir.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að jákvæðir einstaklingar lifi að meðaltali lengur en aðrir og hefur það m.a. verið rakið til þess að þeir hafi meiri lífsvilja og lifi betra félagslífi en aðrir og að það dragi úr streitu. Einnig hafa rök verið færð fyrir því að jákvæðni styrki ónæmiskerfið og dragi úr streituáhrifum.

Fram kemur í The Daily Mail að þekkt sé að fólk með svonefndan A-persónuleika, þ.e. metnaðargjarnt fólk sem gerir miklar kröfur um árangur, sé líklegra til að þjást af hjartasjúkdómum en fólk með aðra skapgerðareiginleika.

Þá hafa rannsóknir sýnt að líklegra sé að fólk með aðra skapgerðareiginleika fái magasár, veirusýkingar og Parkinson-sjúkdóminn.

Dean Hamer,  sérfræðingur við bandarísku stofnunina National Cancer Institute, segir ljóst að persónuleiki fólks mótist bæði af erfðum og uppvexti. Ekki liggi hins vegar fyrir nein algild skýring á því hvers vegna fylgni sé á milli ákveðinna skapgerðareinkenna og ákveðinna sjúkdóma.

Samkvæmt rannsóknunum er mest fylgni á milli langlífis og  samviskusemi og segja vísindamennirnir að líklegast sé að rekja megi þau tengsl til þess að samviskusamir einstaklingar lifi heilbrigðara lífi en aðrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert