Vaxandi hamingja í heiminum

Þrátt fyrir að nú harðni á dalnum hefur hamingja farið vaxandi í heiminum undanfarin ár, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar. Danir eru samkvæmt henni þjóða hamingjusamastir, en óhamingjan en mest í Zimbabwe.

Ástæðu þessarar auknu jákvæðni telja fræðimenn vera hagvöxt í ríkjum sem voru fátæk og útbreiðslu lýðræðis í öðrum, auk batnandi hlutskiptis kvenna og minnihlutahópa.

„Þessi niðurstaða kemur á óvart,“ segir Ronald Inglehart, stjórnmálafræðingur við Háskólann í Michigan, sem stjórnaði gerð könnunarinnar. „Almennt hefur verið talið að það sé næsta vonlaust að hækka hamingjustigið í heilu landi.“

Bandaríkjamenn eru í 16. hamingjusamasta þjóðin.

Niðurstöðurnar eru byggðar á könnunum sem gerðar hafa verið í 52 ríkjum í að meðaltali 17 ár, með þátttöku 350.000 manns. Niðurstöðurnar verða birtar í næsta hefti vísindatímaritsins Perspectives on Psychological Science.

Spurt hefur verið sömu tveggja spurninga: „Þegar allt kemur til alls, myndirðu segja að þú sért mjög hamingjusamur, frekar hamingjusamur, ekki mjög hamingjusamur eða alls ekki hamingjusamur?“ Og: „Hversu sáttur ertu við tilveruna í heild þessa dagana?“

Hamingjuvogin sem búin var til úr svörunum við þessum spurningum hækkaði í 40 löndum á árunum 1981-2007, en lækkaði í hinum 12.

Fyrri rannsóknir hafa bent til að hamingja sé að nokkru leyti arfgeng, og fáist ekki fyrir peninga, en engu að síður benda niðurstöður rannsóknarinnar til að fólk í ríkum löndum sé almennt hamingjusamara en íbúar fátækra ríkja.

Inglehart segir að ennfremur sé greinilegt að hamingja sé mest í þeim löndum þar sem fólk fái sjálft að ráða lífsmáta sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert