Einn af öflugustu fréttamiðlum Bandaríkjanna, AP-fréttastofan, stendur nú í stríði við bloggara. Telur fréttastofan þá marga ganga of langt í að birta án leyfis orðrétta kafla úr skeytum fréttastofunnar í stað þess að endursegja í stuttu máli.
Fyrir nokkru sendi fréttastofan þekktri bloggsíðu vinstrimanna, Drudge Retort, bréf og bað hana um að fjarlægja sjö færslur þar sem vitnað var í AP-fréttir, lengstu tilvitnanirnar voru 79 orð.
AP segist nú áskilja sér rétt til að stöðva slíka notkun á skeytum hennar en ekki er ljóst hvort málsókn er í undirbúningi. Bloggarar eru margir bálreiðir þessari afskiptasemi og sumar bloggsíður hunsa nú með öllu framleiðslu AP-fréttastofunnar.