Færri sæðisfrumur hjá feitum mönnum

mbl.is

Of feitur matur er ekki bara hættulegur fyrir mittismál karlmanna heldur einnig sæðisframleiðslu þeirra. Þetta er niðurstaða nýrrar skoskrar rannsóknar. Samkvæmt henni eru sæðisfrumur of feitra karlmanna lélegri heldur en karlmanna í kjörþyngd.

Rannsóknin, sem var unnin við háskólann í Aberdeen, var kynnt í morgun á ráðstefnu evrópskra sérfræðinga í fósturfræðum, European Society of Human Reproduction and Embryology.

Ghiyath Shayeb, sem stýrði rannsókninni, segir að það sé margur vandinn sem steðjar að of feitu fólki. „Nú getum við bætt lélegu sæði við á þann lista."

Hins vegar telja sérfræðingar að  þetta þurfi ekki endilega að þýða það að of feitir karlmenn eigi í mjög miklum vandræðum með að eignast börn. William Ledger, prófessor í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum við háskólann í Sheffield hefur ekki mikla trú á rannsókninni þar sem að þegar par, þar sem karlmaðurinn er ekki sérstaklega ófrjór en konan er frjó þá jafnist þetta út. Hinsvegar ef báðir aðilar eiga við offitu að stríða þá geti þau lent í vandræðum með að eignast börn enda alþekkt að konur sem eru of feitar geta átt erfitt með að verða ófrískar.

Shayeb og félagar rannsökuðu sæði yfir fimm þúsund skoskra karlmanna og settu þá í hópa eftir líkamsþyngdarstuðlum (BMI) þeirra. Karlmenn sem voru með þyngdarstuðulinn 20-25 sem þýðir að þeir eru í kjörþyngd, framleiddu mun meira af sæðisfrumum heldur en þeir sem voru of þungir eða þjáðust af offitu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert