Góður svefn getur eflt minnið

Reuters

Ný rannsókn bendir til þess að góður nætursvefn sé mögulega besta leiðin til að bæta minnið. Vísindamenn hjá háskólanum í Genf í Sviss segja að svo virðist sem að svefn hafi mikil áhrif á það hvernig heilinn starfi næsta dag.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að svo virðist sem að svefn styrki tengingarnar sem séu á milli taugafrumna í heilanum. Það er mikilvægt fyrir minnið og hæfni manna til að læra.

Vísindamennirnir, sem kynntu niðurstöður sínar á ráðstefnu Samtaka evrópskra fræðimanna á sviði taugavísinda, rannsökuðu hóp sjálfboðaliða sem var kennd ný færni eða þeim sýnd mynd sem þeir áttu síðar að muna.

Meðal þess sem sjálfboðaliðarnir áttu að gera var að fylgja eftir punkti sem færðist til á tölvuskjá með stýripinna.

Einn hópurinn fékk að sofa í átta klukkustundir, á meðan aðrir hópar fengu minni svefn.

Daginn eftir var sjálfboðaliðunum gert að endurtaka það sem þeir höfðu lært eða það sem þeim var gert að muna. Á sama tíma var fylgst með heilastarfsseminni.

Þeir sem fengu eðlilegan nætursvefn stóðu sig betur og það kom greinilega fram þegar heilastarfssemin var rannsökuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka