Intel kynnti í gær nýja kynslóð af Centrino, örflögum fyrir þráðlausar tengingar, eftir margra mánaða bið. Centrino 2 sameinar Wi-fi, sem er aðeins hægt að nota innan 100 metra frá næsta sendi, með nýrri þráðlausri tækni sem kallast WiMax. WiMax býður upp á hraða gagnaflutninga yfir töluvert meiri fjarlægðir sem geta spannað heilu borgirnar.
„Stóra spurningin er hvort þetta er þróun eða bylting, mig grunar að við séum hér frekar að tala um þróun,“ sagði tæknigreinandinn Bryan Ma í samtali við Reuters. „Engu að síður er þetta góð innspýting fyrir iðnaðinn.“
Flögurnar eiga fyrst og fremst að notast í fartölvur, enda færist tölvutækni til persónulegra nota sífellt á hreyfanlegra plan með léttari tækjum og þróun þráðlausrar tækni. Þannig selst í ýmsum löndum töluvert meira af fartölvum en borðtölvum.