Fólk meðvitaðra um streitu

37% Dana hefur einhvern tíma tilkynnt forföll úr vinnu vegna streitu. Stina Amdi Letvad, félagsráðgjafi hjá PFA lífeyrissjóðnum segir að m.a. megi rekja þetta til þess að Danir séu nú meðvitaðri um áhrif streitu en áður.  Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

„Það er mikil áhersla lögð á streitu. það er sífellt verið að tala um hana í blöðunum og í sjónvarpinu og þegar fólk heyrir talað um hlutina kannast það við einkenni þeirra," segir hún. „Það er einnig orðið lögmætara að tilkynna forföll á grundvelli streitu. Áður sagðist fólk vera með flensu eða eitthvað slíkt en í dag getur það leyft sér að segja að það gangi svo mikið á að það standi hreinlega ekki undir því."

Fram kemur í nýrri könnun Capacent Epinion, sem gerð var meðal 1,168 félagsmanna lífeyrissjóðsins PFA Pension að 37% þeirra hafi tilkynnt forföll úr vinnu vegna streitu. Þá sýnir könnunin að streita hefur áhrif á fólk í mjög mismunandi störfum og á öllum aldri.

„Þetta getur komið fyrir mig og þig og alla aðra," segir Letvad. „Tveir samstarfsmenn geta staðið frammi fyrir sömu aðstæðum en það bara brotið annan þeirra niður en ekki hinn. Það veltur mikið á öðrum aðstæðum þeirra og hvernig þeir takast á við þau verkefni sem þeir standa frammi fyrir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert