iPhone 3G með aukinn hraða en líka aukinn kostnað

Nýr 3G iPhone sími.
Nýr 3G iPhone sími.

Hraðari nettenging á móti styttri líftíma rafhlöðunnar er meðal fyrstu ummæla um nýjan þriðju kynslóðar iPhone. Örlítið stærri en aðeins léttari, nokkuð dýrari í rekstri en með GPS-staðsetningartæki.

Þó að upprunaleg útgáfa iPhone fyrir ári síðan marki frekar tímamót heldur en innkoma iPhone 3G síðasta föstudag, þá virðast prófdómararnir, tækniblaðamenn bandarískra stórblaða, almennt ánægðir með nýju græjuna.

Með 3G er nethraði tvisvar til fimm sinnum meiri en á eldri útgáfunni. Uppfærður Mac OS hugbúnaðurinn styður m.a. Microsoft Exchange og styrkir þar með samkeppnisstöðu iPhone gagnvart BlackBerry, allsráðandi smartsíma viðskiptaheimsins. Reyndar býðst þessi uppfærsla líka þeim sem eigi eldri útgáfuna.

Eins og fyrr segir þykir skammlíf rafhlaðan, sem ku vera galtóm á hverju kvöldi, einn helsti gallinn.

3G-útgáfan skartar meiri hljómgæðum, en myndavélin þykir enn af takmörkuðum gæðum.

Þó allnokkur hópur Íslendinga eigi iPhone nú er líklega langt í iPhone 3G hér á landi. Nýi síminn er auk þess töluvert dýrari en sá gamli án þjónustusamnings við AT&T.

Fyrir óþolinmóða Íslendinga virðist lausnin því vera að aflæsa símann – ef það tekst – og borga bandarískan símreikning eða greiða 230.000 krónur fyrir gripinn.

[Uppfært: Hægt er að nálgast iPhone 3G í ýmsum Evrópulöndum, ýmist opinn eða undir annars konar samningsákvæðum. Nánari upplýsingar um iPhone 3G er einnig að finna á vef Maclantic ]

halldorath@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert