Lyf við krabbameini í blöðruhálskirtli

Vísindamenn halda því fram að nýtt lyf sem ræðst gegn illvígu blöðruhálskirtilskrabbameini sé ein mesta framför sem orðið hefur í krabbameinsrannsóknum í sjötíu ár.

Abiraterone getur mögulega hentað sem meðferð fyrir um 80% þeirra sem þjást af illvígu blöðruhálskirtilskrabbameini og sem hefðbundin meðferð virkar ekki á, segja vísindamenn. Lyfið virkar þannig að það hindrar hormón sem krabbameinsfrumurnar nærast á. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Krabbameinsrannsóknarstofnunin breska vonast til þess að lyfið verði komið í pilluformi á markaðinn eftir tvö til þrjú ár.

Nú fer fram viðamikil rannsókn með tólf hundruð sjúklingum víða um heim og von er á fleiri rannsóknum á árinu.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er eitt algengasta krabbameinið meðal karlmanna í heiminum. Árlega greinast um tíu þúsund karlmenn með lífshættulegustu gerð þessa krabbameins í Bretlandi. Meðal líftími eftir lyfjameðferð fer ekki yfir átján mánuði.

Gengið hefur verið út frá því að krabbameinið drægi orku sína frá hormónum eins og testósteróni, sem er framleitt í eistum. Núverandi meðferð beinist að því að stöðva eistun í því að framleiða testerónið.

Sérfræðingar hafa hins vegar nýlega uppgötvað að krabbameinsfrumurnar geta nærst á kynhormónum sem framleidd eru annars staðar, þar með talið hormóni sem það framleiðir sjálft. Abiraterone virkar þannig að það hindrar framleiðslu hormónanna í öllum líkamanum.

Nýjar niðurstöður rannsókna á áhrifum Abiraterone gefa til kynna að æxli hafi minnkað umtalsvert og prótín sem eru framleidd af krabbameinsfrumunum og eru mæld, svokallaðir blöðruhálskirtilsmótefnisvakar, höfðu lækkað.

Læknar segja að þrátt fyrir að þörf sé á mun meiri rannsóknum svo hægt sé að staðfesta virkni lyfsins veki fyrstu niðurstöður bjartsýni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert