Trommuleikarar með svipað þol og íþróttamenn

Lars Ulrich, trommuleikari Metallica, er eflaust í hörku formi.
Lars Ulrich, trommuleikari Metallica, er eflaust í hörku formi. Reuters

Trommu­leik­ar­ar í rokk­hljóm­sveit­um verða að vera í feikna góðu formi eigi þeir að end­ast á tón­leik­um. Fram kem­ur í nýrri rann­sókn að þeir þurfi að hafa álíka gott þol og knatt­spyrnumaður sem leik­ur í ensku úr­vals­deild­inni.

Fram kem­ur á frétta­vef BBC að rann­sókn­ir á Clem Burke, sem lem­ur húðir í hljóm­sveit­inni Blondie, hafi leitt í ljós að 90 mín­útna trommu­leik­ur geti aukið hjart­slátt Burke upp í 190 slög á mín­útu.

Dr. Marcus Smith, sem stjórn­ar rann­sókn­inni, seg­ir að trommu­leik­ar­ar verði að hafa mjög gott þol. Hann seg­ir að eft­ir klukku­tíma trommu­leik á tón­leik­um geti trommu­leik­ar­ar verið bún­ir að brenna á milli 400 og 600 kal­orí­um.

Smith, sem er mik­ill aðdá­andi Blondie, bauð Clem Burke að taka þátt í rann­sókn­inni sem stend­ur yfir næstu átta árin.

Von­ir standa til að niður­stöðurn­ar hjálpi í bar­átt­unni við offitu barna. T.d. verði búin til ný verk­efni sem virki sem hvatn­ing fyr­ir of þung börn sem hafi eng­an áhuga á íþrótt­um.

Rann­sókn­in leiddi í ljós að hjartað sló að meðaltali 140 til 150 slög á mín­útu á meðan Burke lék á tromm­urn­ar. Hraðinn fór mest upp í 190 slög á mín­útu sem er svipað mikið og hjá íþrótta­mönn­um í fremstu röð.

Smith bend­ir á að á meðan bestu knatt­spyrnu­menn­irn­ir spili um einn til tvo leiki á viku þá spili trommu­leik­ar­ar oft kvöld eft­ir kvöld á tón­leik­um.  „Knatt­spyrnu­menn geta alla jafna bú­ist við að leika 40 til 50 leiki á ári. En á 12 mánaða tíma­bili lék Clem á 100 90 mín­útna löng­um tón­leik­um,“ seg­ir Smith.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert