Edgar Mitchell, fyrrum geimfari og tunglgöngumaður hjá NASA, sem meðal annars tók þátt í Apollo 14 leiðangrinum, heldur því fram að geimverur séu til.
Hann heldur því fram að geimverur hafi ofsinnis heimsótt jörðina en að yfirvöld séu búin að halda því leyndu í sex áratugi. Þetta kemur fram á vefnum news.com.au.
Mitchell sem er orðinn 77 ára gamall sagði í útvarpsviðtali fyrir skömmu að heimildarmenn hans hjá NASA hefðu haft samskipti við geimverurnar sem væru litlar og undarlegar á að líta.
Þeim svipaði í raun til þeirra geimvera sem oftast birtust í kvikmyndum, litlar verur með stór höfuð og stór augu.
Hann bætti því enn fremur við að tækni þeirra væri margfalt lengra á veg komin en okkar eigin og hefðu verurnar verið okkur fjandsamlegar væru við horfin veg veraldar.
Mitchell á met í tunglgöngu ásamt fararstjóra Apollo 14, Alan Shepard, og gekk á tunglinu í 9 klukkustundir og 17 mínútur í för þeirra 1971.
„Ég er í þeirri forréttindaaðstöðu að vita af þeirri staðreynd að við höfum fengið heimsókn hingað á jörðina og að það eru til geimverur,“ sagði hann.
Stjórnandi útvarpsþáttarins varð furðu lostinn yfir yfirlýsingum geimfarans.
„Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað geimfaragrín en honum var fullkomin alvara með að það væri til geimverur og það var ekki hægt að draga í efa.“
Embættismenn frá NASA voru fljótir að gera lítið úr yfirlýsingunum.
„NASA fylgist ekki með fljúgandi furðuhlutum. NASA tekur ekki þátt í neinni yfirhylmingu varðandi geimverur hér á jörðinni eða neins staðar annars staðar.“
„Dr Mitchell er frábær Bandaríkjamaður en við deilum ekki skoðunum hans á málinu,“ sagði að lokum í yfirlýsingunni.