Íslendingar sjá sólmyrkva í fyrramálið

Tunglið mun í fyrramálið varpa skugga sínum á sólina þannig að frá Reykjavík mun það skyggja á 59% af skífu sólar þegar mest verður. Á Akureyri verður 61% skífunnar þakið skugga. Mun deildarmyrkvinn hefjast klukkan 08:15 í Reykjavík og standa til 10:09. Í Kanada, Síberíu, Mongólíu, Kína og á Grænlandi mun skuggi tungls skyggja að fullu á sólu.

Sólmyrkvar verða þegar sól, tunglið og jörð liggja í beinni línu þannig að skuggi tunglsins fellur á jörðu. Að auki verður tungl að vera fullt eða nýtt. Nýtt er tungl þegar hin myrkvaða hlið þess snýr að jörðu þannig að það sést ekki.

Þegar tunglið skyggir að fullu á sól er talað um almyrkva en það nefnist deildarmyrkvi þegar skuggi þess hylur aðeins hluta sólar. Hringmyrkvi verður þegar skuggi tunglsins er fyrir miðri sól en grannur baugur sólar umlykur hann.

Þorsteinn Sæmundarson, doktor í stjörnufræði, segir í Almanaki Háskóla Íslands erfitt að svara því hve algengir sólmyrkvar séu. Á árunum 1000 til 2000 sáust samkvæmt Almanakinu 239 sólmyrkvar á öld að meðaltali. Þar af voru 84 deildarmyrkvar en almyrkvar voru 78 og hringmyrkvar 77.

Þegar al- og hringmyrkvar verða er alltaf deildarmyrkvi einhvers staðar á jarðkringlunni. Því eru deildarmyrkvar í raun jafnmargir heildarfjölda sólmyrkva og þannig ekki ýkja óalgengir. Þess ber þó að geta að hver sólmyrkvi er aðeins sjáanlegur á vissum stöðum.

Þar sem tunglið fjarlægist jörðina um 3,8 cm ári vegna breyttra sjávarfalla mun sýndarþvermál þess minnka með tímanum. Það mun þannig virðast smærra frá jörðu. Nú er sýndarþvermál mána og sólu nánast hið sama. Skuggi tunglsins minnkar einnig og mun að endingu ekki ná að skyggja á alla skífu sólar.

Talið er að síðasti almyrkvi verði eftir tæp 600 milljónir ára. Stækkun sólar á tímabilinu mun einnig hafa sitt að segja um þetta.

Varasamt að horfa beint í sólina

Sólmyrkvar, hverrar gerðar sem þeir eru, vekja athygli fólks en illa getur farið fyrir þeim sem láta forvitnina leiða sig í gönur. Horfi fólk beint í sólina geta skaðlegir geislar hennar valdið hornhimnu augnanna óbætanlegum skaða. Mikilvægt er að horfa ekki beint í sólina eða að nota þá réttan hlífðarbúnað, sérstök sólskoðunargleraugu eða slíkt.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun á Íslandi. Það mun standa fyrir sólskoðun á Austurvelli í Reykjavík þegar deildarmyrkvinn verður nú á föstudaginn, ef veður verður gott. Þar býðst áhugasömum að virða fyrir sér myrkvann á öruggan hátt með öllum viðeigandi hlífðarbúnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert