Tölvufyrirtækið Microsoft hefur byrjað þróun á nýjum hugbúnaði, Midori, sem mun taka við af Windows stýrikerfinu. Midori verður frábrugðið Windows að því leiti að kerfið verður á netinu í stað þess að vera bundið við eina tölvu. Litið er á Midori sem svar Microsoft við notkun samkeppnisaðila á svokallaðri sýndartækni, sem er talin leysa ýmis vandamál nútímatölvunotkunar.
Á fréttavef BBC kemur fram að Microsoft sé byrjað að þróa Midori vegna þess að ólíklegt sé að Windows stýrikerfið ráði við hraðar breytingar á tæknibúnaði og notkun hans. Áður fyrr hafi flestir unnið alla sína vinnu á einni vél og Windows stýrikerfið var bundið við þá vél. Hins vegar tíðkast í dag og mun enn frekar í framtíðinni að fólk er á meiri hreyfingu og velur búnað til þess að ná í upplýsingar eins og myndir og tölvupóst oft af handahófi.
Í yfirlýsingu frá Microsoft segir að Midori stýrikerfið sé eitt af mörgum verkefnum sem séu í þróun hjá fyrirtækinu. Hins vegar sé of snemmt að tjá sig um stýrikerfið.