Líkamsrækt verndar heilann

Þeir sem stunda íþróttir eða líkamsrækt verða ekki einungis líkamlega hraustir heldur hafa allmargar rannsóknir nú staðfest að heili þessa fólks nýtur einnig góðs af ræktinni.

Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær, að þeir sem stunda líkamsrækt eru fljótari að læra, hafa betra minni, hugsa skýrar og eiga auðveldara með að ná bata eftir heilaskaða á borð við heilablóðfall. Ennfremur er þeim síður hættara við þunglyndi og öldrunartengdum vitglöpum.

Frá þessu greinir á vísindavefnum LiveScience.

Um ástæður þessa segir Fernando Gomez-Pinilla, við Háskólann í Kaliforníu, að líkamsæfingar, líkt og hungur, valdi líkamlegri streitu, og stundum sé streita af hinu góða.

Loftháð þjálfun veldur hröðum bruna hitaeininga og er þar af leiðandi ógn við orkubirgðir líkamans. Hann bregst við með því að vernda mikilvægasta og orkufrekasta líffærið: Heilann.

Ólíkt frumum í öðrum líffærum, sem ekki eru eins mikilvæg, eru taugafrumur sérlega viðkvæmar fyrir orkubirgðaröskun. Taugafruma deyr ef hún fær ekki orku í eina mínútu, segir Gomez-Pinilla. Þess vegna miðast öll starfsemi líkamans við að vernda heilann.

Vísindamenn segja ennfremur, að líkamsrækt bæti starfsemi heilans, því að allar hreyfingar líkamans kalli á taugafrumuboð. Mikil hreyfing valdi því að boðin verði samfelld og þá losni efni sem kallast vaxtarþættir.

Þessi þættir geri frumurnar hraustari og sterkari, myndi nýjar og bæti tengslin á milli þeirra og næringarnám þeirra. Þetta geri að verkum að hugsun, nám og minni batni. Líkamsrækt „styrkir því pípurnar í heilanum,“ eins og einn vísindamannanna komst að orði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka