Ástralskur vísindamaður heldur því fram að það gæti haft jákvæð áhrif í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda borði fólk kengúruborgara í stað hamborgara með nautakjöti, líkt og flestir eiga að venjast.
Hann segir að gastegundirnar sem bæði kindur og kýr losi, þegar dýrin ropa eða leysa vind, eigi stóran þátt í hlýnun jarðar. Áhrifin séu í raun mun meiri heldur en losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.
Hann bendir á að meltingarkerfi kengúra sé byggt upp með öðrum hætti og af þeim sökum losi þær lítið af metangasi, ólíkt kindum og nautgripum, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Vísindamaðurinn George Wilson, sem starfar hjá Áströlsku dýrlífssamtökunum, hvetur bændur til að hefja kengúrubúskap.
Kindur og nautgripir losa um 11% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda Ástrala. Ýmsar tillögur hafa verið ræddar varðandi það hvernig megi taka á þessu máli.
Wilson segir lausnina mögulega liggja hjá kengúrunum. „Það bragðast mjög vel, ekki ósvipað hjartarkjöti, en bragðið er aðeins öðruvísi,“ segir hann.